Dagskrá Málstofu
Málstofan “From Strain to Strength?” – vel heppnaður umræðuvettvangur um framtíð íslenska orkumarkaðarins.
Norconsult á Íslandi hélt málstofu þriðjudaginn 14. október 2025 á Hilton Reykjavík Nordica þar sem leiðtogar úr orkuiðnaði, stjórnsýslu og atvinnulífi ræddu áskoranir og tækifæri íslenska orkumarkaðarins fram til ársins 2040. Dagskráin stóð frá kl. 12:30 til 19:00, flutt voru 10 erindi auk þess að fram fóru pallborðsumræður. Þátttakendur voru yfir 60 talsins.
Málstofan var sett af Egil Hogna, forstjóra Norconsult, sem bauð gesti velkomna áður en fyrsta lota málstofunnar hófst, undir fyrirsögninni „Iceland’s energy market 2025–2040: Where are we heading?“ Þar tóku til máls Ólafur Adolfsson, alþingismaður, og Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri áætlana og framkvæmda hjá Landsvirkjun, en þau ræddu um hvort og hvernig hraða megi orkuskiptum og uppbyggingu nýrra orkukosta, og hverju sé raunhæft að ná fram á næstu árum.
Í annarri lotu var sjónum beint að áskorunum og hindrunum í uppbyggingu og rekstri orkufreks iðnaðar og fyrirtækja: Álfheiður Ágústsdóttir (ELKEM) ræddi áskoranir í iðnaði vegna ófyrirsjáanleika og takmarkaðs framboðs á orku, Bergþóra Halldórsdóttir (Borealis Data Center) fjallaði um áhrif takmarkaðrar afhendingargetu rafmagns á uppbyggingu og vöxt gagnavera á Íslandi, Svandís Hlín Karlsdóttir (Landsnet) sagði frá flutningskerfi Landsnets og kerfisáætlun fram til ársins 2050 og María Guðmundsdóttir (Umhverfis- og orkustofnun) fjallaði um ferli leyfis- og umhverfismála vegna nýrra virkjanakosta.
Þriðja lota sneri að fjárfestingum og nýrri orkuvinnslu: Hálfdán Ágústsson (Norconsult) sýndi hvernig nýta megi íslenskt loftslag til orkuvinnslu, Jørgen Klev (Zephyr AS) fór yfir norskar fjárfestingaáætlanir í vindorku á Íslandi og Tryggvi Þór Herbertsson (Qair Group) kynnti fýsileika Katanes-verkefnisins í framleiðslu á grænu eldsneyti/orkuberum. Að lokum var pallborðsumræða undir yfirskriftinni: „So, where are we heading?“ með þátttöku Egils Hogna, Svandísar Hlínar Karlsdóttur og Ólafs Adolfssonar, áður en boðið var upp á léttan kvöldverð en undir honum urðu líflegar umræður.
Við hjá Norconsult þökkum fyrirlesurum og öðrum þátttakendum fyrir frábæran dag og líflegar umræður. Málstofan styrkti sameiginlegan skilning okkar á leiðinni fram úr núverandi stöðu orkumála á Íslandi, og undirstrikaði mikilvægi skýrra ferla, raunhæfrar verkefnaröðunar og samvinnu milli hagaðila.
Fyrirlestrar málstofunnar eru aðgengilegir hér neðar á síðunni og eru birtir með leyfi fyrirlesara.
Hafið endilega samband við okkur til að fá nánari upplýsingar um efni málstofunnar eða ef við getum á einhvern hátt aðstoðað við orkutengd verkefni: "iceland@norconsult.com".
Egil Hogna CEO Norconsult
Ólafur Adolfsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins
Ásbjörg Kristinsdóttir fyrir Landsvirkjun
Álfheiður Ágústsdóttir fyrir ELKEM
Bergþóra Halldórsdóttir fyrir Borealis Data Center
Svandís Hlín Karlsdóttir fyrir Landsnet
María Guðmundsdóttir fyrir Umhverfis- og orkustofnun
Hálfdán Ágústsson fyrir Norconsult Ísland / Kjeller Vindteknikk
Jørgen Klev fyrir Zephyr AS
Tryggvi Þór Herbertsson fyrir Qair Group